154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lét þess getið í framsöguræðu minni að ég hygðist leggja fyrir þingið skýrslu um þróun fjármálareglna í nágrannaríkjunum og í þeirri skýrslu verður komið inn á ólíkar útfærslur á fjármálareglum sem lúta að útgjöldum og útgjaldareglum, hvernig þær eru, hver reynslan af þeim hefur verið o.s.frv. Það verður á endanum þingsins auðvitað að taka afstöðu til þess en að mínu áliti færi ekki vel á því að við myndum bæta útgjaldareglunni beint ofan á aðrar fjármálareglur eins og þær eru í lögum um opinber fjármál. Þær reglur fékk ég samþykktar hér á þinginu á sínum tíma þegar við samþykktum lög um opinber fjármál og voru smíðaðar með ráðgjöf mjög færra sérfræðinga í þessum efnum á alþjóðavísu. Ég myndi segja að það sé orðið alveg tímabært að leggja mat á reynsluna af fjármálareglunum eins og við höfum innleitt þær. Við höfum farið í gegnum efnahagslægðir og ýmislegt gengið á í efnahagsmálum á Íslandi, m.a. út af heimsfaraldri, sem gefur okkur tilefni til að leggja mat á það hvort við höfum stillt allar skrúfurnar rétt af við smíði reglnanna. Fyrir mitt leyti þá kemur vel til greina að leggja til við þingið útgjaldareglu en það myndi þá hafa afleiðingar á aðra samsetningu reglnanna.

Varðandi málefni hælisleitenda þá er það fyrst og fremst á forræði dómsmálaráðherra að leggja til breytingar og leggja mat á ávinninginn af slíkum breytingum. En ég bara bendi á þennan gríðarlega kostnað sem verður vegna þess hversu langan tíma tekur hjá okkur að afgreiða umsóknir. Hver einstaklingur sem bíður, og þeir eru langt yfir þúsund, kostar 350.000 kr. á hverjum mánuði.